Guðmundur Jónsson óperusöngvari

Það fyrsta sem Guðmundur sagði við mig var " ég kenni ekki söng, en ég skal hjálpa þér að finna þína leið". Það næsta sem hann sagði fannst mér merkilegra "og ef þér líst ekkert á þetta máttu skipta um kennara því að þú ert að þessu fyrir þig en ekki mig". Svo kom það sem mér þótti erfiðast að sætta mig við og er stóri sannleikurinn í þessu öllu saman "ef þér finnst röddin hljóma fallega þá ertu með 100% vissu að syngja vitlaust. Treystu aldrei því sem þú heyrir í sjálfum þér, treystu engum kennara, ekki einu sinni mér, en trúðu því sem ég heyri".

Ég þóttist góður með mig þegar ég byrjaði í Söngskólanum. Hafði sungið Sarastro í Tjarnarbíóí árið áður í uppfærslu Nýja Tónlistarskólans og hafði mikið sjálfstraust. En í Söngskólanum náði ég varla að klifra upp yfir meðaltalið. Það sem bjargaði mér að ég var eini bassinn og því varð að notast við mig. Merkilega hluti heyrði ég svo löngu seinna sem mér þótti vænt um að heyra og skýrðu margt. Eftir að hafa sungið í Jóhannesarpassíunni í kringum 1998 kom Sigurður Demetz til mín og sagði "Davíð, af öllum mínum söngnemum hefði ég aldrei trúað því að þú myndir ná þessu, ein Wunder ist geschehen (kraftaverk hefur gerst). Ég vil biðjast afsökunar en ég vildi ekki kenna þér áfram eftir fyrsta árið þitt hjá mér, þú varst alveg vonlaus".

Ég hafði lært í einn vetur hjá Demetz en þá fór ég til Englands í söng- og enskunám. Konan sem kenndi mér þar var og er mjög virtur kennari, Annette Thompson. Ég sendi henni upptöku af þessari sömu Jóhannesarpassíu og nokkrum aríum og þakkaði henni fyrir að hafa haft trú á mér. Hún hringdi til baka og sagði pent " Davíð minn, takk fyrir sendinguna. Af öllum mínum nemendum ert þú sá síðasti sem ég hefði trúað að yrði söngvari, röddin hafði jú smá sjarma en hitt var ónýtt".

Þetta rifja ég upp því það er hollt að muna hvaða leið maður hefur að baki. Öllum ólöstuðum tók Guðmundur sig til og byrjaði aftur frá grunni. Þá var ég búinn að læra söng í 7 ár. Það sem Guðmundur Jónsson og Ólafur Vignir gáfu mér í veganesti er það sem ég bý að í dag. Það fæ ég seint þakkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband