Þjóðverjar, vorið og nútímatónlist

Það er vor í lofti þó að lóan hafi grafið sig í fönn í morgun. Sl. föstudag söng ég óperu Hafliða Hallgrímssonar Víröld fláa með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það kom hópur af Þjóðverjum og Englendingum sem sungu með. Þýski tenórinn hefur sungið verkið mörgum sinnum á sviði og kunni það utanbókar. Hann gekk að hljómsveitarstjóranum á fyrstu æfingunni og sagiðst ekki nenna að æfa þetta allt aftur því að hann væri hvort sem er mörgum deildum ofar en við hin í þessum bransa. Ég ákvað að lækka í honum rostann og sagði honum að íslenska útgáfan væri þríund hærri en sú þýska. Hann horfði á mig skelfingu lostinn enda var ég ekki einu sinni búinn að heilsa manninum.

Æfingarnar voru skemmtilegar og andrúmloftið gott. Frumtextinn er skrifaður með alskonar meðvitðum villum. Þessar villur fengu að halda sér í íslensku þýðingunni. Ekki vissu allir af því enda var beðist afsökunar á innsláttarvillum fyrir tónleikana um leið og fólk var beðið um að slökkva á farsímunum. Fréttastofan hringdi meira að segja í mig og spurði mig hvurslags orðskrípi Víröld fláa þýddi, hvort það ætti ekki að vera VERÖLD. Jebbs, það var lóðið.

Ég elska hámenningu Cool


Goran, Ísland og allir

Það er erfitt að blogga þegar ég veit að vissum trúnaði verður maður að halda gagnvart öllum sem ráða mig til starfa. Það er svosem ekkert erfitt að þegja en það er líka gaman að láta "andans truntu þeysa".

 Ég fór á tónleika Goran Bregovic í Laugardalshöllinni í gær. Þetta var mjög merkilegt. Nei, þetta var alveg fáránlegt. Skærasta rokkstjarna Júgóslavíu forðum tróð upp og dyravörðum var skipað að halda öllum sitjandi. Ég hló, og allir í kringum mig hlógu nema dyraverðirnir og gamlar konur sem fussuðu og sveijuðu yfir hávaða í ex-júgóslövum sem komu til að sjá idolið sitt. Sömu dömur fengu sér svo kandísmola í viðkvæmustu lögunum svo að skvaldrið í serbunum varð minna en skrjáfrið í sælgætispokunum og soghljóðin sem þar á eftir fylgdu.

Þetta var merkilegt á alla vegu. Bregovic er jafn geggjaður og ex-júgóslavarnir sem voru að hlusta á hann. Um leið og sígaunarnir byrjuðu að spila hoppaði þetta lið upp úr stólunum og byrjaði að dansa. Dyraverðirnir komu þá hlaupandi og spurðu fólk hvort það truflaði tónleikana að hafa þetta lið dansandi fyrir framan sig. Ég er ennþá að jafna mig á þessu. Ég er ennþá að bíða eftir kvörtunum yfir þeim íslendingum sem föttuðu giggið og hlupu fram á gólf og dönsuðu sem óðir menn fram í nóttina. Það var ekki annað hægt.

 Goran gerði okkur töluverðan óleik að vera með of marga bíó-trailera á þessum tónleikum. Þeir áttu ekkert erindi á þessa tónleika og voru langdregnir og alveg úr samhengi við allt. En sígaunabandið tryllti liðið. Það var alveg einstök upplifun að sjá þetta allt saman. En þegar blómadömurnar mættu á sviðið skildi maður loksins að hér voru tveir ólíkir menningaheimar að takast á. Listahátíð og Balkanskaginn. Ég ætla að sitja á mér þar til ég hef jafnað mig á frekari yfirlýsingum.  Allir mínir bestu vinir frá námsárunum í Vín eru frá Bosníu, Serbíu og Króatíu. Ég mun seint játa að þetta lið sé heilt á geði en ég er það ekki heldur.

En í Laugardalshöllinni þetta kvöld sá ég nýja og gamla Ísland mætast. Það voru ekki fagnaðarfundir en það var góður fundur og nauðsynlegur. Kona fyrir framan mig sagði við einn dyravörðinn "segðu þeim að halda kjafti, þeir skilja málið".

Enn sem fyrr hefur Laugardalshöllinni ekki tekist að blanda strengjasveit í þessa hljóðnema á þess að hljóma eins og gormur yfir klósettskál. Af hverju??? Söngurinn var líka illa blandaður. Myndatakan var hlægileg. Hvað á ég að gera við lítinn skjávarpa sem sýnir sviðið í raunstærð??? Ég hef lent svo oft í þessu að ég ætla að sitja á mér um sinn... a.m.k hálfan dag.

Við erum rík þjóð. Við höfum náð svo miklum árangri á skömmum tíma og ég er mjög stoltur af því. En við erum samt eins og Kennaraháskólinn; andlega 30 árum á eftir tækniþróuninni - eins og einn kennari minn í Háskólanum sagði. Við erum að ráða tæknimenn sem skilja ekki kúltúr. Ég er ekki að tala niður til neins en ég mun skýra þetta á næsta sólardegi.


Mynd af slottinu

Picture 172

Svona lítur slottið út, þetta er hliðin sem snýr út í garð, en hin hliðin er alveg eins Smile Klæðningin er á leiðinni


KosningaTV, brottkast og ég

Jæja, kæru vinir, kominn aftur eftir smá hlé. Datt út vegna söngvaraballs og breyttra fjölskylduhaga.

 Húsið er orðið fokhelt og ég hef ekkert gert síðan ég fékk vottorðið, margt um það að segja.

Þegar ég var lítill drengur elskaði ég að horfa á kosningasjónvarpið. Ég horfði á allt bla blaið til að sjá Halla og Ladda á milli bla bla talna. Þá var "Sundin okkar" einu sinni í viku og annað barnaefni ekki í boði. Síðan stækkaði ég og varð svo frægur að fá að syngja í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 fyrir fjórum árum. Við Kurt Kopecky mættum í myndverið um miðnætti og þurftum að bíða í tvo tíma til að komast að. Þá varð ég vitni að merkilegum samræðum. Í græna herberginu sátu allir frægustu fréttaskýrendur landsins. Ég gekk inn í herbergið og heilsaði. Enginn tók undir kveðjuna nema Ingvi Hrafn sem var kampa kátur. Ég kom víst inn í umræðuna að það væri fáránlegt að vera  með skemmtiatriði í kosningasjónvarpi. Svo byrjaði skemmtiatriði sem við horfðum á sjónvarpsskjá inni í græna herberginu og þessir fréttamenn blótuðu allan tímann. Eftir skemmtiatriðið var kallað í tvo fréttastjóra og þá barst frygðarstuna um herbergið. Þeir fóru inn í myndverið og töluðu um skoðanakannanir og sjálfa sig. Seinna um nóttina söng ég og gerði nokkuð vel, svona eurovision tengt lag. Ég gekk út úr myndverinu og kvaddi alla spekúlantana í græna herberginu; enginn kvaddi enda var Ingvi Hrafn farinn. Vorum við ekki annars allir á sömu forsendu þarna?

Ég hafði gaman að auglýsingum flokkanna. Flest var innan marka en þegar ég sá brottkasts auglýsingu Frjálslyndra hló ég. Þetta var allt saman þorskur yfir 50cm og svo stórum fiski hendir enginn íslenskur sjómaður. Þetta hefur ekkert með kvótakerfið að gera, það er svindlað í öllum kerfum.

 Ég skal vera duglegri kæru vinir og vandamenn.


London, Siðmennt og ég

Steypan er enn að þorna fyrir þá sem bíða spenntir.

Er að skreppa til London í dag á tónleikana hjá Garðari Thór, en útgefendurnir vildu allt í einu hafa tónleikana í september en hvað um það, ég fer samt. Í ljós hefur komið að margir vinir og kunningjar sem ætluðu á tónleikana ætla samt að fara og gera sér glaðan dag. Það er ágætur hópur búinn að bóka sig á hótelið og skarinn ætlar að byrja á Sushi á Soho í kvöld.

Ég hef mikið gaman að félagsskap sem kallar sig Siðmennt. Þeir ruddust fram á ritvöllinn þegar Birgismálið komst í hámæli og heimtuðu ríkisrekin meðferðarúrræði eingöngu. Svo kom Breiðavíkurmálið upp. Þá skrifaði enginn neitt og ekki hef ég séð neinar greinar frá þeim um klámráðstefnuna. Siðmennt skrifar bara gegn Jésutrúarfólki á opinberum vettvangi. Ég hef líka séð þá skrifa um borgaralega fermingu, en það virkar á mig eins og sojakjöt. Ég var ekki fermdur og fékk enga sérstaka fræðslu þegar ég var 13 ára til að vera eins og hinir. En þegar ég reif einu sinni kjaft við kennarann minn var ég sendur aftur til að biðjast afsökunar. Því gleymi ég aldrei.

Mér var hugsað til þeirra um daginn þegar fréttamenn heimsóttu kaþólska prestinn sem leiddi okkur í allan sannleikann um öskudaginn. Þarf þá ekki að finna samhliða þessu dag sem tengist ekki kirkjunni! T.d. rusladaginn þar sem trúlausir hreinsa garða nágranna sinna og fá nammi fyrir!

Ég er að sjálfsögðu ekki hlutlaus í þessari umræðu enda á ég langan feril að baki sem kirkjunnar maður. Því fer víðs fjarri að ég sé sáttur eða sammála öllu því sem frá lærisveinum meistarans kemur, en fjölbreitt mannlíf og lífsgleði er það sem ég tel eftirsóknanvert. Síðan eiga foreldrar að ala börnin sín upp með þeim hætti að stöðugt áreinti fjölmiðla, tölvuleikja, trúboða, skola o.s.fr. sé hluti af þeirri menningu sem við lifum í - og gera börnin að heilbrigðum einstaklingum sem kunna að velja og hafna. Það geta bara ekki allir alltaf verið sammála.


Steypan, pólskan og Öskubuska

Nokkuð hefur borið á leti og bloggkvíða undanfarið enda nokkuð annasamur Þorri að baki.

Sem fyrr segir keypti ég mér hús í Litháen og það stendur núna í innkeyrslunni hjá mér í þremur 40 feta gámum. Sem betur fer eru engir nágrannar byrjaðir moka í nágrenninu svo að sökkullinn stendur eins og í fyrsta þættinum af Húsinu á sléttunni. Ég man eftir þeim þætti í svart/hvíta sjónvarpinu sem tók 50 sek að hita lampann til að fá mynd. Maður kveikti á sjónvarpinu og fór svo inn í eldhús til að fá sér eitthvað áður en myndin birtist.

 

Í gær var svo stóri dagurinn. Við feðgarnir steyptum kl 13.00. Það er tvennt sem er breytt frá því í gamladaga þegar við vorum að byggja bílskúra. Steypan kemur blautari og þornar hraðar. Eftir að hafa jafnað hæðina vel skrapp ég heim að ná í vatn. Þegar ég kom til baka var pabbi eins og óður maður að berja á steypunni, svona eins og þegar ísbjörn er að reyna að ná í feita selinn undir ísnum. Við vorum búnir að missa það eins og hann orðaði svo pent. Við börðum á steypunni eins og óðir menn og fórum með bænir.

Picture 099  Picture 095

Þetta var þegar steypuvinnan var hálfnuð. Merkilegt að þegar ég þarf að vinna í húsinu er Airbus 380 þotan komin Íslands að æfa lendingar í sterkum hliðarvindi.

Það var með þetta eins og Húsið á sléttunni. Þetta fór vel og allir lærðu sína lexíu. Næst verðum við með túlk þegar steypubíllinn kemur.

 Mig hefur oft langað til að fá mér myndavél sem tekur upp allt sem gerist fyrir framan mig þegar ég er að keyra. Á laugardaginn mætti ég bíl á Laugarveginum, stuttu áður sá ég bíl taka hægri-beygju á Miklubrautinni - frá vinstri beygju akrein og þvert fyrir 3 akreinar rétt áður en það varð grænt. Í gær sá ég svo bíl taka fram úr vörubíl með því að keyra uppi á umferðareyju með tvö hjól.

 Ég var með nokkurn kvíða þegar ég sá þáttinn Tónlistin er lífið í sjónvarpinu sl. sunnudag. Þátturinn var tekinn upp fyrir um ári síðan. Þegar ég fór að hitta Ara Trausta hélt ég að við værum að fara að undirbúa þáttinn, en hann mætti með allt bixið og var til í töku. Ég var nokkuð viss um að hafa ekki heyrt nógu vel í píanóinu og það kom í ljós í fyrsta tóndæmi.... íííí´aðeins undir tóni. Annað slapp held ég.

Daginn eftir fór pabbi á karlakórsæfingu. Flestir höfðu séð þáttinn og voru að skipuleggja hópferð á Öskubusku eftir Rossini..... sem var sýnd fyrir ári síðan.


Byggingar og bremsur

Stór dagur í dag. Sökkullinn steyptur og húsið kemur í gámi til landsins. Það er víst betra að steypan fái að þorna segja þeir.

Ég er búinn að keyra viða um heiminn og er að verða hálf hælistækur hérna í umferðinni. Allir troða sér, það er ljóst. En ef maður vill bæta umferðarmenninguna með því að gefa "séns" treystir manni enginn. Ég hef oft hægt á mér til að hleypa bílum framhjá en það trúir mér enginn. Menn stara eins og naut á nývirki og hreyfa sig hvergi. Hinir gefa ekki stefnuljós og ég treysti þeim ekki. Þetta er sirkus þarna úti.

Best að halda upp á daginn.


Fm, Vilnius og Trabant

Það kom smá uppá eins og maðurinn sagði. Dagurinn í gær var bilun. Í gærmorgun vaknaði ég við skilaboð um að ég yrði að koma sem fyrst og skrifa undir pappíra vegna húsamála. Að fljúga til Vilnius fram og til baka í miðri viku er ekkert grín. Ég skal segja ykkur hver ódýrasta leiðin var og þetta er ekki fyrsta sinn sem þetta gerist.

Í morgun flaug ég út með Iceland Express og svo með Airbaltic til Litháen.

Á morgun mun ég fljúga til baka með Airbaltic og svo með Icelandair heim, en sá miði var keyptur fram og til baka vegna þess að það borgar sig aldrei að fljúga með óskabarninu aðra leiðina. Þvílikt bull.

Í gær sungum við Stefán í beinni á verlaunahátið FM95.7. Þetta var eins og hvert annað gigg fyrir okkur nema hvað að við mættum tvisvar á æfingar í Borgarleikhúsinu sem voru afboðaðar eftir að við mættum. Við sungum í upphafi brot af öllum lögunum sem voru útnefnd sem lag ársins. Síðasta lagið var Sexy boy með Trabant og við byrjuðum lagið acapella (án undirleiks) og svo kom Trabant inn. Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Trabant er ótrúlega flott band, lögin góð og strákarnir í bandinu frábærir. Við vonum bara að við fáum að vinna með þeim aftur því þetta var svo skemmtilega súrt.

Hlustendaverðlaun FM 95.7 er besta hátíð sem ég hef séð live í sjónvarpi. Allir voru eðlilegir, kátir en ekki þessi spjátrungsháttur sem hefur alltaf loðað við Edduna og Grímuna og er alltaf pínlegt. Allt í einu stóðum við Stefán þarna inni um allt poppið og þar var fólkið sem við getum talað við.

Á morgun kemur pistill um Vilnius, best geymda leyndarmál Evrópu hvað matargerð varðar og allt annað. Tók að mér smá verkefni hérna og það endar með tónleikum sýnist mér.


Ljót hús og kassablokkir

Það hefur orðið hlé á bloggfærslum eftir að kuldinn fór niður fyrir -6 gráðurnar. Gaman að byrja byggingaframkvæmdir í kaldasta janúarmánuði allra tíma!

Sem fyrr sagði seldi ég gamlan kjallara í Vesturbænum og ætla að byggja mér hús heima í Reykjanesbæ fyrir peninginn og kaupa mér stóran jeppa fyrir afganginn. Ég lét teikna hús sem mig langar að búa í og ef ég sel það verður það vistlegt hús sem öllum getur liðið vel í. Það sama verður ekki sagt um kassalaga bárujárnsblokkirnar sem allir verktakar virðast vera að byggja. Þetta er metnaðarlaust drasl og er sjónmengun sem komandi kynslólðir munu þurfa að þola.

Einu sinni var Ungverji í heimsókn hjá mér í Vínarborg. Hann fann bók um Reykjavík á borðinu hjá mér, fletti bókinni, benti svo á mynd af Háaleitisbrautinni og sagði: hvers vegna ætti ég að koma til Íslands? Það er allt fullt af svona húsum í Rússlandi.

Það eina sem komið í veg fyrir sjónmengunina er að kaffæra öll þessi hús í gróðri, fallegum trjám og klifurjurtum. Ég sá ljótu kassablokkirnar á Arnarneshæðinni auglýstar í gær. Núna fylgir gólfefnaúttlekt, þvottavél, þurrkari og útsýni með. Það er víst ekki slegist um þetta sýnist mér. Verktakar ættu ekki að byggja hús nema þeir væru til í að búa þar sjálfir. Hallgrímur Helgason benti líka réttilega á að allir frægustu arkitektar landsins byggju í 101 Reykjavík, eina hverfinu sem þeir teiknuðu ekki sjálfir.

 


Látum oss byggja

Þá er maður loksins búinn að rétta daginn af. Fyrir einu og hálfu ári seldi ég kjallarann minn í Vesturbænum og á morgun byrja ég að byggja heima í Reykjanesbæ. Jú, þetta er val, en klikkunin er sú að maður byggir gott einbýlishús fyrir utan Reykjavík fyrir andvirði kjallara..... og fínan bíl fyrir afganginn. Pabbi bíður spenntur eftir að fá að byrja.

Pabbi minn er húsgagnameistari. Sem ungur maður var hann byggingarstjóri á tveimur stórum fjölbýlishúsum í Keflavík. Síðan var hann verkstjóri í stærstu glugga og hurðaverksmiðju landsins í mörg ár auk fjölda húsa og bílskúra sem hann sá um að byggja. En hann má ekki vera byggingarstjóri á kofanum mínum skv. nýjustu reglum. Hann er mjög sár og móðgaður og ég skil það vel.

Erfingjar Jóhannesar úr Kötlum eru vissir um að hann hefði ekki leyft Alcan að nota ljóðið sitt í auglýsinguna frægu. Fyrsta erindið sem sungið var er reyndar ekki eftir Jóhannes. Ætli hann hefði verið sáttur við að láta syngja textana sína í kirkjum landsins? Ætla ættingjarnir að stöðva það, af því að hann var sósíalisti?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband