Þegar netið kom og heimþráin fór

Sit og hlusta á Óskastundina á rás 1. Þegar ég bjó í Vínarborg og Luebeck reyndi ég alltaf að hlusta á Óskastundina á netinu. Þetta er svona "best of" Óskalög sjómanna, sjúklinga og unglinga. Þetta voru vinsælustu þættir gömlu Gufunnar en var hóflega skammtað til landsmanna í umboði ríkisins.

Ég bjó í Englandi árið 1991. Þá reyndi ég eftir megni að ná stuttbylgjusendingum útvarpsins og mér tókst einu sinni að ná á Heklugoss-veðurfréttir innan um skruðninga og ungverska úmpa úmpa valsa. Svo fór ég til Vínarborgar árið 1997 og þar var hægt að lesa Sunnudags Morgunblaðið á kaffi MAK. Íslendingafélagið borgaði fyrir blaðið og ef samgöngur brugðust ekki mátti lesa blaðið á miðvikudögum. Árið eftir fékk ég mér tölvu og 26k módem og gat þá lesið textavarpið á netinu. Síðan jókst tengihraðinn og þegar ég gat loksins hlustað á útvarpið í tölvunni missti ég heimþrána endanlega. Ísland var ekki lengur sveipað fjarlægum leyndardómi. Ég gat hlustað á veðurfréttirnar, lesnar tilkynningar og leiðindaþvargið í hreppapólitíkusum á Alþingi.

Að hlusta á fréttir frá Íslandi í erlendri stórborg gerir engum gott. Ég varð afhuga því að flytja heim í þessa þröngsýni og baktal. Ég ferðaðist til Bandaríkjanna á þessum árum og sagðist þá alltaf vera frá Evrópu, aldei Íslandi. Merkilegt hvað gott netsamband breytir miklu.


Prestana burt

Ég hef mjög gaman að þessari umburðalyndu sveiflu sem lýsir sér helst í því að úthýsa prestum úr leikskólum. Þá vona ég að sömu leikskólar séu sjálfum sér samkvæmir og banni allar heimsóknir jólasveina, hætti öllu jóla- og páskaföndri, minnist ekki á Þorláksmessu og spreði ekki í jólatré. Páskafríið má heita Fríið sem aldrei er á sama tíma og Hvítasunnuhelgin Fríið sem er 40 dögum eftir fríinu sem aldrei er á sama tíma. Þetta er bara byrjunin. Næst verða Ásatrúarmenn látnir finna fyrir því....... eða hvað?

images


Guðmundur Jónsson óperusöngvari

Það fyrsta sem Guðmundur sagði við mig var " ég kenni ekki söng, en ég skal hjálpa þér að finna þína leið". Það næsta sem hann sagði fannst mér merkilegra "og ef þér líst ekkert á þetta máttu skipta um kennara því að þú ert að þessu fyrir þig en ekki mig". Svo kom það sem mér þótti erfiðast að sætta mig við og er stóri sannleikurinn í þessu öllu saman "ef þér finnst röddin hljóma fallega þá ertu með 100% vissu að syngja vitlaust. Treystu aldrei því sem þú heyrir í sjálfum þér, treystu engum kennara, ekki einu sinni mér, en trúðu því sem ég heyri".

Ég þóttist góður með mig þegar ég byrjaði í Söngskólanum. Hafði sungið Sarastro í Tjarnarbíóí árið áður í uppfærslu Nýja Tónlistarskólans og hafði mikið sjálfstraust. En í Söngskólanum náði ég varla að klifra upp yfir meðaltalið. Það sem bjargaði mér að ég var eini bassinn og því varð að notast við mig. Merkilega hluti heyrði ég svo löngu seinna sem mér þótti vænt um að heyra og skýrðu margt. Eftir að hafa sungið í Jóhannesarpassíunni í kringum 1998 kom Sigurður Demetz til mín og sagði "Davíð, af öllum mínum söngnemum hefði ég aldrei trúað því að þú myndir ná þessu, ein Wunder ist geschehen (kraftaverk hefur gerst). Ég vil biðjast afsökunar en ég vildi ekki kenna þér áfram eftir fyrsta árið þitt hjá mér, þú varst alveg vonlaus".

Ég hafði lært í einn vetur hjá Demetz en þá fór ég til Englands í söng- og enskunám. Konan sem kenndi mér þar var og er mjög virtur kennari, Annette Thompson. Ég sendi henni upptöku af þessari sömu Jóhannesarpassíu og nokkrum aríum og þakkaði henni fyrir að hafa haft trú á mér. Hún hringdi til baka og sagði pent " Davíð minn, takk fyrir sendinguna. Af öllum mínum nemendum ert þú sá síðasti sem ég hefði trúað að yrði söngvari, röddin hafði jú smá sjarma en hitt var ónýtt".

Þetta rifja ég upp því það er hollt að muna hvaða leið maður hefur að baki. Öllum ólöstuðum tók Guðmundur sig til og byrjaði aftur frá grunni. Þá var ég búinn að læra söng í 7 ár. Það sem Guðmundur Jónsson og Ólafur Vignir gáfu mér í veganesti er það sem ég bý að í dag. Það fæ ég seint þakkað.


Alvöru vandamál !

Þegar ég vann við hjálparstarf í norður Pakistan voru helstu vandamálin opið klóak sem flóð yfir allar götur á morgnana, 25% barnadauði og ættbálkaerjur með tilheyrandi hefndarmorðum. Þegar ég bjó í Austurríki var búið að gera alla sátta við eftirlauna- og heilbrigðiskerfið svo að helstu vandamálin samkv. forsíðum blaðanna voru deilur um nýju leikhússtjöldin í Ríkisóperunni og að finna nafn á nýfæddan flóðhest í dýragarðinum. Hann fékk að sjálfsögðu nafnið Aida.

Ég var að hugsa um þetta þegar ég fór á tónleika Sinfóníunnar sl fimmtudag. Píanóið er alveg skelfilegt og hljómburðurinn verri svo að út kom gormkennt glamur sem minnti helst á hljóðkerfin sem fylgdu 16mm sýningarvélunum hér í denn. Er þetta ekki alvöru vandamál? Smile

Ég held að ég verði á Rás 1 á morgun í þættinum Hvað er að heyra. Þetta er svona spurningakeppni í anda Kontrapunkts. Maður fær að fikra sig að svarinu og svo er gefið stig fyrir að hafa geta þetta svona  næstum því. Þátturinn var tekinn upp fyrir 2 vikum. Ég var líka beðinn um að vera í Útsvarinu fyrir Reykjanesbæ. Því miður hef ég ekki taugar í þessháttar sprell. Það er þægilegt að svara öllu heima í stofu en í beinni stama ég bara.


Óperulok

 

 Þá er Ariadne auf Naxos búin og ég líka. Þetta var svakaleg törn. Við trúðarnir vorum ekki lengi á sviðinu en ég hef aldrei æft eins mikið fyrir eins lítið. Við Stefán erum á fullu að æfa nýtt prógramm og gengur vel.


Ariadne og Köben

Ekki verð ég sakaður um leti þótt færslum fækki. Þetta er búin að vera mikil törn. Frumsýning á Ariadne á morgun og ég svona rétt mátulega búinn að læra sporin. Aldrei á ævinni hef ég æft eins mikið fyrir svo lítið. En vonandi er það þess virði. Andinn í hópnum er góður og við erum hásir af hlátri frekar en söng. Það veit á gott þykir mér.

Ég skrapp til Köben sl helgi og söng í Tivolí með Stebba og Helga. Það var ævintýri líkast og gaman að skreppa í úðlanda að syngja.

Jói Björns vinur minn í siðmennt var að kvarta undan kirkjuklukkum. Ég vaknaði kl 6 á laugardagsmorgni við ráðhússklukkurnar í Köben. Það var klukka en ekki kirkja.


Töðugjöld og önnur haustverk

Nú fer að hausta og þá kemst alltaf meiri regla á óregluna. Sumarið var fljótt að líða enda var ég með regnhlíf í Danmörku yfir heitustu júnídagana hér í Reykjavík. Ég ætlaði að bera mig mannalega og fara í laxveiði sl viku. En þegar valið stóð á milli þess á ná smá lit í pallasmíði hér fyrir sunnan eða fara í ísdorgveiði fyrir norðan var ég ekki í vafa..... þó ég væri búinn að borga fyrir stöngina. Ég fór hvergi.

 Það er menningarnótt í dag! Við Stefán förum á Sægreifann og tökum nokkur lög. Við gerum þetta ánægjunar vegna því þetta er flottasti veitingastaður borgarinnar. Svo fer ég á málverkasýningu í gamla Heilsuverndarhúsinu og svo brunum við Stefán á Hellu og stýrum þar Töðugjöldum í kvöld. Svo er ég að syngja Schubertmessu með austurrískum kór á morgun, og í afmæli nágranna míns og eitthvað fleira sem ég man ekki þessa stundina.

Jú, haustvertíðin fer að byrja.


Kleppur og krítík

Ég söng á 100 ára afmæli Klepps um daginn. Sagði þeim eftirfarandi reynslusögu sem er alveg sönn.

Þegar ég bjó í Þýskalandi var brotist inn til mín um miðja nótt, hurðin barin niður og flaug inn á gólf með körmum og öllu. Ég stökk fram á gang og sá þar mann sem sagði að lyfjaframleiðendur ætluðu að sprengja götuna í loft upp. Hann lofaði mér milljóna skaðabótum fyrir hurðina og hljóp svo inn til sín og byrjaði að henda húsgögnum niður stigaganginn. Ég hringdi á lögregluna sem kom, elti manninn uppi og króaði hann af í dimmum stigaganginum. Þeir lýstu hann með vasaljósum og einn lögreglumaðurinn spurði: hver ertu? Maðurinn sem hafði farið hamförum róaðist allt í einu, umbreyttist í einum vetvangi, breiddi út faðminn og svaraði "Jesús Kristur". Við þetta svar ruddist lögreglan upp, handjárnaði manninn og pantaði hvíta bílinn sem ók honum beint á næsta hæli. Ég sá hann aldrei eftir þetta. Þessi atburður sótti á mig eftir að ég kom heim til Íslands, sérstaklega eftir að ég fór að horfa á Ómega. Jesús er nefnilega ekki alltaf svarið!

Bryn Terfel og  Dmitri Hvorostovsky fengu ágæta krítík fyrir tónleikana síðna á Listahátíð, svona um 3 stjörnur í Mogganum hvor. Hvað þarf ég þá að gera til að verskulda a.m.k. eina stjörnu? Við hvað er miðað? Maður hefur nú oft hlegið að bullinu í krítíkerunum sem koma úr drama leikhúsinu og fara að tjá sig um óperur. Sá sem ekki getur lesið hljómsveitarskor á ekki að tjá sig um óperusýningar sagði Stefan Zweig um R.Strauss krítíkerana hér í denn.

 


Kaffi Hljómalind, Kleppur og Kerran

Ég söng tvær barokkaríur á Kaffi Hljómalind í gær ásamt strengjasveit. Það gleymdist að vísu að auglýsa viðburðinn en stregjasveitin byrjaði á Árstíðunum eftir Vívaldi. Þarna sat ég við gluggann á þessu litla kaffihúsi og hlustaði á Vorið eftir Vivaldi þegar haglélið kom. Túristarnir hlupu eins og flóttamenn undan stórskotaliði í allar áttir en mér leið eins og aðalpersónu í kaffiauglýsingu undir þýðum hljómi tónlistarinnar.  

Ég fór tvisvar til Keflavíkur í gær, það gerist oft og stundum þrisvar. Ég fékk kerru lánaða hjá vini mínum og flutti 2 tonn af utanhússflísum og álprófílum með henni til Keflavíkur. Þetta var tveggja hásinga kerra og mikil smíðum. Þegar ég ætlaði að skila henni í morgun stóð kerra vinar míns fyrir framan húsið en festing sem fylgdi kerrunni sem ég var með var fyrir utan hjá nágrannanaum. Ég hafði þá tekið vitlausa kerru. Fór samt inn og þakkaði fyrir lánið, ég þekkti ekki nokkurn mann en heyrði samt tautað á eftir mér "er þetta ekki söngvarinn?".

Fór á Klepp í dag að funda með starfsmannafélaginu. Spítalinn á 100 ára afmæli og þá þarf að leita að skemmtiatriðum út fyrir stofnunina. WHY ME!

 


Heimsklúbbur bankastjóra

Öll njótum við velgengni bankanna í aukinni atvinnu og tækifærum. Þeir kalla ekki allt ömmu sína og fá það sem þeir vilja. En sl fimmtudag fékk ég símhringingu frá stóru PR fyrirtæki hér í borg.

PR. Hæ, Davíð, getið þið Stefán sungið á mega samkomu í Valhöll á Þingvöllum á laugardaginn?

Ég: Nei því miður, er að fara á tónleika í Laugardalshöll, búinn að kaupa miða.

PR: Ok

Ég: Fyrir hvern er þetta?

PR: Glitni

Ég: og hver bað um okkur?

PR: Glitnir

Ég: Þetta er aðeins of stuttur fyrirvari, ég er búinn að lofa familíunni smá dinner.

PR: Ok bæ.

Ég: Blessaður

Svo var þetta bara skemmtifundur alheimsklúbbs bankastjóra. Ég var ekkert sár þegar ég las þetta í blöðunum en hingað til hafa bankarnir fengið það sem þeir biðja um. Af hverju var ekki gert yfirtökutilboð í okkur félagana? PR fólk á Íslandi hefur ekki einu sinni vit á að setja pulsuvagninn fyrir framan sviðið hjá verstu hljómsveitinni á útihátíð, hvað þá að díla fyrir hönd bankanna. PR fólk á Íslandi er ekki með í útrásinni.... þeir eru í innrás!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband