Noregur og vont verra!

Ég er ekki að röfla en mig langar bara svo mikið að segja fólki frá því hversu vondur maturinn í Noregi er. Ég fékk að vísu einu sinni góðan mat í Osló. Þá fór ég vinsælan fiskrestaurant með hópi söngvara. Helmingurinn borðaði ekki rækju, tveir voru með mjólkuróþol og ég þoli ekki smokkfisk. Konan sem þjónaði okkur til borðs urraði og hótaði soðinni ýsu í alla rétti. Maturinn var góður og að þökkum stóðum við Garðar Thór upp og sungum tvö lög. Maður í lopapeysu kom til okkar á eftir og sagði að konan sín hefði hrifist af söngnum. Annar maður kom og spurði hvort við værum ítalir. Ég svaraði hátt að við værum frá Reykjavík. Og maður minn, það fór undrunar- og frigðarkliður um salinn. Ég er ekki að ýkja. Þegar við fórum kom hin mjög svo karlmannlega þjónustukona með tárin í augunum og spurði mig af hverju við hefðum gert þetta. Ég faðmaði hana og sagði "Það er svo leiðinlegt hérna í Osló að við ákváum að breyta því og það hófst hér í kvöld". Þegar við vorum komin út á götu kom annar maður hlaupandi út og bauð öllum í eitt coniac-glas ef við kæmum aftur inn og syngjum eitt lag..... af því að konan hans sagði honum að gera það.

Fyrir tveimur árum var ég með karlakór Dalvíkur í Noregi. Það sama var uppi á teningnum. Allur matur vondur. Helgin síðasta staðfesti þetta endanlega. Í afmælinu var eðal matur enda var kokkurinn sænskur. Daginn eftir fórum við á flottasta staðinn í Ósló sem stendur við konungshöllina og heitir Pascal. Þar var eindregið mætl með hamborgara. Jú, ég pantaði herlegheitin. Þessi hakkbolla sem ég fékk var sörveruð með súrsaðri rauðrófu og kartöflumús. Þetta fæst á öllum lestarstöðvum í Þýskalandi og kallað frikadella. Daginn eftir gafst ég upp og veðjaði á Mexíkóskan stað. Ég ætla ekki að lýsa því sem ég fékk en það var misheitt með Knorr Aromat-ofkryddun á miðri sneið. Að sjálfsögðu var salatið með 1000 Island sósu eins og algilt er allt kál í Noregi.

Eftir afmælið í Noregi flaug ég með tveimur vinum mínum til Íslands. Þeir eru á leið til Bandaríkjanna og ætla að gera stutt stopp hérna heima. Það stóð aldrei annað til en að afgreiða þetta með matinn í Noregi með stæl. Ég bauð þeim því á Skólabrú og þeir hafa ekki mælt orð síðan. Útrætt. Amen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband