30.11.2007 | 09:32
Þegar netið kom og heimþráin fór
Sit og hlusta á Óskastundina á rás 1. Þegar ég bjó í Vínarborg og Luebeck reyndi ég alltaf að hlusta á Óskastundina á netinu. Þetta er svona "best of" Óskalög sjómanna, sjúklinga og unglinga. Þetta voru vinsælustu þættir gömlu Gufunnar en var hóflega skammtað til landsmanna í umboði ríkisins.
Ég bjó í Englandi árið 1991. Þá reyndi ég eftir megni að ná stuttbylgjusendingum útvarpsins og mér tókst einu sinni að ná á Heklugoss-veðurfréttir innan um skruðninga og ungverska úmpa úmpa valsa. Svo fór ég til Vínarborgar árið 1997 og þar var hægt að lesa Sunnudags Morgunblaðið á kaffi MAK. Íslendingafélagið borgaði fyrir blaðið og ef samgöngur brugðust ekki mátti lesa blaðið á miðvikudögum. Árið eftir fékk ég mér tölvu og 26k módem og gat þá lesið textavarpið á netinu. Síðan jókst tengihraðinn og þegar ég gat loksins hlustað á útvarpið í tölvunni missti ég heimþrána endanlega. Ísland var ekki lengur sveipað fjarlægum leyndardómi. Ég gat hlustað á veðurfréttirnar, lesnar tilkynningar og leiðindaþvargið í hreppapólitíkusum á Alþingi.
Að hlusta á fréttir frá Íslandi í erlendri stórborg gerir engum gott. Ég varð afhuga því að flytja heim í þessa þröngsýni og baktal. Ég ferðaðist til Bandaríkjanna á þessum árum og sagðist þá alltaf vera frá Evrópu, aldei Íslandi. Merkilegt hvað gott netsamband breytir miklu.
Athugasemdir
Blessaður Davíð,
búin að leita á netinu hvernig hægt sé að hafa samband við ykkur Óperudívurnar en ekkert fundið. Okkur hér í Hamborg langar að athuga hvort þið hafið áhuga að kíkja í heimsókn á Þorrablót í febrúar og troða upp ? Sendu mér línu....Kv. Magnea
Frúin í Hamborg (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 21:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.