Færsluflokkur: Bloggar
8.12.2006 | 09:14
Finnland - að finna Finna
Í fyrradag mætti ég í móttöku finnska sendiráðsins á þjóðhátíðardegi Finnlands. Það er eitthvað við þessa þjóð sem ég elska. Að umgangast Finna er eins og að lesa Laxness; maður hlær að því sem ekki er sagt. Einu sinni heimsótti ég vinkonu mína til Helsinki. Pabbi hennar sótti mig og sagði ekki orð alla leiðina, eða í um 2 tíma. Daginn eftir var hann heldur ekki farinn að tala en undir kvöldið var eitthvað um gönguskíði í sjónvarpinu. Þá snéri sá gamli sér að konunni sem sat þarna með fjarstýringuna og sagði "hækkaðu".
Finnar hafa gert alveg stórkostlegar kvikmyndir um vetrarstríðin sín. Myndin um 23. herdeildina er ein besta stríðsmynd sem ég hef séð. Ég fór að lesa mig til um þetta ótrúlega stríð þar sem Finnar vörðust hetjulega herjum Rússa. Ég man ekki hlutföllin en ég held að Rússarnir hafi verið um 10 sinnum fleiri en Finnarnir. Frægasta leyniskytta alltra tíma er Finninn Simo Hayha en hann drap yfir 500 Rússa á um 100 dögum. Þá eru ekki taldir þeir 200 sem hann drap með hálfsjálfvirkum hríðskotara. Þegar hann var spurður hvernig hann hefði ná þessum árangri svaraði hann einfaldlega "practice". Þið getið lesið um þetta á http://en.wikipedia.org/wiki/Simo_H%C3%A4yh%C3%A4
Góður vinur minn er giftur finnskri konu. Einn daginn kom bróðir hennar snemma úr skólanum. Hann settist inn í eldhús og fékk sér kaffi. Móðir hans sem var að baka snéri sér að honum og spurði hvar hann hefði verið. Hann leit rólega upp og svaraði "Var að klára doktorspróf í lífeðlisfræði" og hélt svo áfram að drekka kaffið. Þetta er dagsatt.
Að lokum segir frá finnsku konunni sem var ekki sátt við manninn sinn
Hún: Þú segist aldrei elska mig! Það eru yfir 30 ár síðan þú sagðist elska mig.
Hann: Það var í kirkju fyrir framan 200 vitni og ég lofaði að elska þig allt fram í dauðann. En ég skal að láta þig vita þegar ég er hættur að elska þig.
Mynd af konungi sem er að missa völdin. Hefur ekkert með Finnland að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 02:16
Úðlendingar
Við Stefán urðum að keyra til Hornafjarðar þar sem nokkuð tvísýnt var með flugið. Stefán keyrði til baka og var að sjálfsögðu stoppaður af löggunni eins og alltaf þegar hann gleymir ökuskírteininu. Löggan var hinsvegar kurteis og minnti hann á að fyrir 3 klst hefðu allar sektir hækkað um 30%.
Við Stefán höfum kynnst nýju vandamáli sem snertir árshátíðir fyrirtækja. Þetta er smá kúlturmál. Við höfum lent í að syngja í fordrykk hjá fyrirtækjum sem eru með marga pólverja i vinnu. Þar stendur mörlandinn með bolluna í skrautglasi með röri og regnhlíf og segir ekki orð. Pólverjarnir mæta hinsvegar með sinn eigin vodka og drekka hann í lítratali á fastandi maga. Í einni veislunni lágu nokkrir í fósturstellingu á gólfinu sjúgandi á sér þumalputtann. Þetta er dagsatt. Ég sem hélt að maður hefði séð þetta allt saman í söngskólanum. Ónei.
En heimurinn er oðrinn alþjóðlegur. Söngvarar elska vona húmor. Japani stjórnar Wagner:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2006 | 09:45
Hornafjörður hurra!
Við Stefán munum fljúga í dag til Hafnar í Hornafirði. Það verður sungið á jólahlaðborði í kvöld en svo keyrum við heim í nótt því ég þarf að mæta á Requiem æfingu í fyrramálið. Svo tekur þessi venjulega laugardagsgeggjun við.
Ég vil óska Snorra Wium til hamingju með nýja diskinn. Að því tilefni læt ég fylgja með mynd af honum ósminkuðum að morgni til.
Mynd af óbreyttum tenór á low profile álfelgum sem snúast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 00:45
Noregur og vont verra!
Ég er ekki að röfla en mig langar bara svo mikið að segja fólki frá því hversu vondur maturinn í Noregi er. Ég fékk að vísu einu sinni góðan mat í Osló. Þá fór ég vinsælan fiskrestaurant með hópi söngvara. Helmingurinn borðaði ekki rækju, tveir voru með mjólkuróþol og ég þoli ekki smokkfisk. Konan sem þjónaði okkur til borðs urraði og hótaði soðinni ýsu í alla rétti. Maturinn var góður og að þökkum stóðum við Garðar Thór upp og sungum tvö lög. Maður í lopapeysu kom til okkar á eftir og sagði að konan sín hefði hrifist af söngnum. Annar maður kom og spurði hvort við værum ítalir. Ég svaraði hátt að við værum frá Reykjavík. Og maður minn, það fór undrunar- og frigðarkliður um salinn. Ég er ekki að ýkja. Þegar við fórum kom hin mjög svo karlmannlega þjónustukona með tárin í augunum og spurði mig af hverju við hefðum gert þetta. Ég faðmaði hana og sagði "Það er svo leiðinlegt hérna í Osló að við ákváum að breyta því og það hófst hér í kvöld". Þegar við vorum komin út á götu kom annar maður hlaupandi út og bauð öllum í eitt coniac-glas ef við kæmum aftur inn og syngjum eitt lag..... af því að konan hans sagði honum að gera það.
Fyrir tveimur árum var ég með karlakór Dalvíkur í Noregi. Það sama var uppi á teningnum. Allur matur vondur. Helgin síðasta staðfesti þetta endanlega. Í afmælinu var eðal matur enda var kokkurinn sænskur. Daginn eftir fórum við á flottasta staðinn í Ósló sem stendur við konungshöllina og heitir Pascal. Þar var eindregið mætl með hamborgara. Jú, ég pantaði herlegheitin. Þessi hakkbolla sem ég fékk var sörveruð með súrsaðri rauðrófu og kartöflumús. Þetta fæst á öllum lestarstöðvum í Þýskalandi og kallað frikadella. Daginn eftir gafst ég upp og veðjaði á Mexíkóskan stað. Ég ætla ekki að lýsa því sem ég fékk en það var misheitt með Knorr Aromat-ofkryddun á miðri sneið. Að sjálfsögðu var salatið með 1000 Island sósu eins og algilt er allt kál í Noregi.
Eftir afmælið í Noregi flaug ég með tveimur vinum mínum til Íslands. Þeir eru á leið til Bandaríkjanna og ætla að gera stutt stopp hérna heima. Það stóð aldrei annað til en að afgreiða þetta með matinn í Noregi með stæl. Ég bauð þeim því á Skólabrú og þeir hafa ekki mælt orð síðan. Útrætt. Amen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2006 | 14:36
Norge
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 00:43
Söngur og sorp
Við vorum því sendir inn bakdyramegin. Þar óðum við í gamalli mjólk og sojasósu með lyftarana í tango við smókingklædda herramennina. Vá, við tókum okkur stöðu við dyrnar sem við áttum að eiga okkar grand auftritt. Yfir þessum dyrum var færiband með pressuðu sorpi og aðeins einn staður sem hægt var að standa á án þess að verða undir slorinu. Við Stefán ljómuðum eins og fermingarbörn í drullupolli. Nánar í næsta skeyti. Flýg til Noreg í fyrramálið til að syngja í afmæli.
Davíði og Stefánsson undir sorpfæribandi hjá Gámaþjónustunni. Davíð heldur á myndavélinni og virkar því nær og feitari!!! Sjúr!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2006 | 22:35
Trúfræðsla vs Trúboð
Gamall og góður bekkjarfélagi minn úr Keflavík, Jóhann Björnsson, var að mótmæla trúboði í Kastljósinu um daginn. Þetta er þörf umræða. Um 90% þjóðarinnar telst vera kristin og ég er nokkuð sammála því að ríkið eigi ekki að standa í trúboði. Hinsvegar hefur enginn mótmælt jóla- og páskafríum og ég veit ekki um marga sem hafa neitað að taka sér frí á öðrum í Hvítasunnu. Íslendingasögurnar eru fullar af trúboði og í niðurlagi taka menn kristna trú og læra að fyrirgefa og konur ganga í klaustur. Völuspá er Orðskviðir Salomóns og Opinberun Jóhannesar á íslensku. Reyndar er líka morgunbæn á rás 1 en þá eru flestir sofandi svo að það pirrar menn síður.
Kristin samfélög eru oftast tilbúin að taka tillit til þerra sem eru þeim ósammála. Ég spyr mig oft hvort að þeir sem mótmæla kristinfræðinni hæst séu tilbúnir að umbera aðra yfirleitt. En mitt í öllu þessu setja trúaðir og trúlausir skóinn út í gluggann og leyfa börnunum sínum að trúa á jólasveininn, köttinn, Grýlu og Leppalúða. Um það deilir enginn. Amen.
Sá svolítið eftir því í dag að hafa lært í 8 ár á trompet. Var að reyna að spila á píanó
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2006 | 21:50
FÍH og Kastljósið
Kórar og hljómsveitir í óperuhúsum Þýskalands standa þétt saman. Það valtar enginn yfir kórinn eða hljómsveitina. Hinsvegar er alltaf níðst á fastráðnum sólistum. Ástæðan er einföld. Ef einsöngvarar ákveða að syngja ekki vegna einhverra deilumála, nægir óperustjóranum að hringja í þá sem alltaf hafa verið í aukahlutverkum og bjóða þeim aðalhlutverk. Slíkur hópur stendur aldrei saman.
Kastljósið er hætt að greiða fyrir tónlist og FÍH biður félagsmenn sína að koma ekkki fram í Kastljósinu nema gegn umsömdum greiðslum. Ákveðinn kjarni mun leggja baráttunni lið en hinir munu fagna. Færri klassískir gaul- og sargarar fyrir vikið. Það er of mikið í húfi. Kynningarmátturinn er of mikill og það að komast framfyrir röðina í Kastljósinu er bara lottóvinningur. Það mun því miður aldrei verða samstaða um þessi mál.
Það er eitthvað bogið við að skrifa athugasemdir hér á mbl blogginu. Allir verða að gefa upp netfang en enginn vill gera það. Hefði frekar átt að skrifa á útlendri síðu sem er alveg sama um þá sem skrifa athugasemdir. En gestabókin er opin skilst mér.
Sá löggubíl bakka á nýjan Lexus-jeppa í dag. Ætli konan á Lexusinum hafi hringt á hina lögguna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2006 | 22:42
Vort líf, vort líf
Vegna tveggja áskorana hef ég látið undan þrýstingi og er nú byrjaður að blogga. Maður verður sjálfsagt fljótlega dæmdur hælistækur en ég er með vottorð.
Hvað viljið þið vita? Söng eins og vitlaus maður alla helgina og endaði á Hótel Selfossi og það kom jarðskjálfti þegar við Stefán sungum Undir dalanna sól. Við gerðum hlé á laginu og tilkynntum að þetta hefði verið kosningaskjálftinn í kjördæminu, síðan endurtókum við viðlagið. Annars virka þessir Árborgar Túborgar brandara frekar billegir. Þeir eiga að halda hausi og kalla sig Vínarborg. Stíll yfir því.
Við óperu-ídívurnar Davíð og Stefán sungum einnig á styrktarsamkomu fyrir barnaheill á Hótel Sögu. Mér finnst oft þarfara að styrkja börn til náms en að púkka upp á pólitísk kerfi í löndum sem funkera hvort eð er illa. Meðvirkir segja oft við hjónaskilnað: æji, mér tókst ekki að breyta honum/henni. Sama er með kynslóðirnar. Ég vann við að byggja barnaskóla í norðurhluta Pakistan fyrir mörgum árum. Börn voru að vinna erfiðisvinnu allt í kringum okkur. Skólinn var fyrir stelpur og stráka og þau börn sem þar læra að lesa og skrifa verða föðurbetrungar. Börnin sem við menntum í dag munu breyta þjóðfélögum, ekki núverandi stjórnarherrar.
Óperu-ídívurnar æfa á hverjum morgni kl 07.00 eftir að hafa hlýtt á Orð dagsins á RUV.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)