Alcan, Laxness, Kaldalóns og Bubbi

Núna get ég vart orða bundist. Erfingjar Laxness gáfu bréfasafn skáldsins en með afturvirkum skilyrðum eftir að Hannes Hólmsteinn fór að gramsa. Erfingjar Sigvalda Kaldalóns bönnuðu Alcan að nota "Kirkjan ómar öll" í auglýsingu af því að hann hefði verið á móti því sem náttúruunnandi.

Erfingjar Bubba Mortens hefðu aldrei leigt Glitni/Sjóvá réttin á lögunum hans fyrir tugi milljóna af því að Bubbi söng á móti kapítalistunum........ eða hvað?

 


Nýtt nýár!

Þá er nýtt ár hafið þó erfitt sé að greina mun dags og nætur og liggur vandinn aðallega hjá mér. Ég náði að fyllast gleði og kvefi. En sjálfstæðir listamenn búa ekki við neina samhjálp þegar kemur að veikindum. Reyndar mun Sjóvá greiða mér 40.000kr á mánuði í hálft ár ef ég er búinn að vera veikur í meira en þrjá mánuði. En mitt í þessu hugga ég mig alltaf við það sem efnaður frændi minn sagði alltaf: Mundu bara Davíð minn að það bað þig enginn um að gerast söngvari.

En til allrar hamingju náði ég mestri hálsbólgunni úr mér fyrir nýársdag. En hálsbólga er bólga eins og orðið gefur til kynna og bólgur má lækna með Ibufeni í stórum skömmtum eða sterum í smáum skömmtum. Ef eitt virkar ekki reynir maður stundum hitt. Þá syngur maður vel í eina kvöldstund en daginn eftir er maður eins og lamin spýta. Ætli þetta heiti ekki að vera listamaður Smile

En áramótin komu og ekkert brá útaf í stóru veislunum. Perlan er alltaf erfið en við Stefán vorum eins og sitthvor póllinn á kompási og hlupum í hringi. Á Sögu hrökk restin af hálsbólgunni upp úr mér í miðju lagi en það er með það eins og hvert annað hundsbit, bara kyngja því. Þetta er mjög gaman en stundum langar mig bara að keyra leigubíl.


Nú árið er liðið

Jæja, þá er árið liðið. Ég gerði fátt á þessu ári annað en að vinna. Markvert var að ég tók mér sumarfrí, hefur ekki gerst í mörg ár. Þá dvaldi ég 2 vikur við Napa og San Fransico. Þetta svæði er paradís á jörðu, fólkið, náttúran og vínberin.

Fékk í hálsinn á jóladag og söng á bólgueiðandi lyfjum í fyrradag. Hefði samt ekki fallið á lyfjaprófi.  Á morgun hefst svo árið með söng og aftur söng. Meira um það síðar.

Fyrir ári síðan sat ég fyrir framan sjónvarpið með ömmu minni þegar Halldór Ásgrímsson hélt áramótaávarp forsætisráðherra. Hann talaði um að öryrkjar væru ekki einsleitur hópur, svo um eiturlyf og loks um málefni aldraðra. Amma var að hlusta með öðru eyranu en leit svo snöggt á mig þegar Halldór nefndi aldraða og sagði: Hvað er maðurinn að segja, er gamla fólkið komið í eiturlyf?

Ég óska svo öllum gleðilegs árs.


Rækjur og Rakettur

Margt í gangi þessa dagana. Það verður erfið útför í dag og svo munum við Stefán syngja við skautasvellið á Ingólfstorgi.

Ég horfði á flugeldasalana í Kastljósi í gær. Örn Árnason sjálfstæður flugeldafíkill og Jón hjá Landsbjörg. Það er mjög göfugt að styrkja gott málefni og kaupa af björgunarsveitunum en vandinn er sá að ég kaupi bara aldrei flugelda. Er ekki ótrúlegt að land sem stærir sig af því að vera herlaust skuli verða að treysta á sjálfboðaliðasveitir þegar náttúruhamfarir ganga yfir og stórslys verða. Þessar björgunarsveitir eru svo að skrapa upp í kostnað með sölu á ljósaperum, rækjum og rakettum. Svo rekum við líka háskóla sem fjármagnar sig með skafmiðum, happadrætti og peningakössum. Neeeeii. Svona gerir maður ekki. Góða helgi!


Þessi agalega Evrópa

Það er hreint með ólíkindum hversu öll umræða á Íslandi er ófagleg. Þegar ræða þarf brýn pólitísk málefni er umræðan strax farin að snúast um persónur og hver heldur með hverjum. Ég var einu sinni að þýða bækling úr þýsku yfir á íslensku. Mig vantaði orð yfir ósköp ómerkilegar skrúfur. Ég hringdi í amk fjóra Þjóðverja á Íslandi og allir gáfu sama svarið: ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og treysti mér ekki til að svara þessu. Ég urraði á móti MIG VANTAR BARA EITTHVAÐ, NOKKURN VEGINN.

Þá fóru að rifjast upp fyrir mér sambærilegir hlutir. Ég var einu sinni að sýna Austurríkismönnum Suðurlandið, Seljalandsfoss og Gljúfrabúa. Mig vantaði orðið yfir gjá eins og Gljúfrabúa. Enginn treysti sér til að gefa skýrt svar því þeir voru ekki jarðfræðingar. Þetta er óþolandi pirrandi. Eftir nokkur ár í Evrópu fór ég að skilja þetta. Menn eru ekkert að gaspra um hluti sem þeir hafa ekkert vit á.

Á Íslandi eru menn mjög snöggir upp og mynda sér skoðanir á alþjóðlegum málefnum út frá eigin hyggjuviti. Þetta er að drepa alla helbrigða umræðu. Evrópusambandið er skammaryrði; táknar bákn, kúgun og reglugerðafargan. En ég bjó þarna í miðju sambandinu og hef sjaldan haft það betra. Menn hrópa upp yfir sig og segja að það sé fáránlegt að börn megi ekki vinna, og að verktakar þurfi að bera ábyrgð á þeim húsum sem þeir byggja, að flutningabílstjórar verði að hvíla sig reglulega o.s.fr. Vissulega eiga sumar reglur við aðrar aðstæður en almennt séð hefur ESB samningurinn komið reglu á kaótíkina hér.

Njörður P. Njarðvík benti mér á athyglisverðan punkt um daginn. Hann sagði að Evrópusambandið væri eina stjórnvaldið sem stæði vörð um mannréttindi á þessari plánetu.

Það er mjög erfitt að taka þátt í umræðu sem hefst á upphrópunum eins og "fávitarnir í Bandaríkjunum" og "báknið í Evrópu". Ég hvet alla til að lesa VERÖLD SEM VAR eftir Stefan Zweig. Þessi bók er skrifuð af ótrúlegu fordómaleysi af manni sem flúði nasismann og þá Evrópu sem hann elskaði. Engar upphrópanir, engir sleggjudómar, aðeins úthugsaðar vangaveltur um mannlegt eðli og orsök og afleiðingu í pólitísku samhengi.

Um evruna tjái ég mig ekki, ég hef enga þekkingu til þess þó að mér finnist hún spennandi Cool


Bannaðir jólamarkaðir og aftansöngur

Gleðileg jól alle sammen. Ég hef nú gert fátt annað en að syngja og sofa þessa dagana. Ég söng tvær messur á aðfangadag og það er bara eitt sem ég á erfit með. Í Betlehem er barn oss fætt, öll erindin. Það hættir aldrei þetta lag. Á jóladag er skárra, þá er ekkert Í Betlehem og Ó helga nótt.

Fór í jólaboð fjölskyldunnar í dag. Amma var í svaka stuði og dansaði með öllum í kringum jólatréð í hjólagrindinni. Hún er að verða 91 árs. Hún hélt nú ekki ræðu í dag en vanalega óskar hún öllum gleðilegra jóla og brýnir svo fyrir öllum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Einstaka fjarskyldir hafa mótmælt henni en þeir reyna það ekki nema einu sinni.

Ég hef upplifað jólin í mörgum löndum. Ég var að hugsa um þetta þegar bíll í svigkeppni á Hringbrautinni tók fram úr mér, keyrði inn í hringtorgið á felgunum og fór yfir á rauðu við Háskólabíó. Þetta er bara einn af svo mörgum og ég verð hálf dapur að horfa upp á þetta. Í Vínarborg og í Þýskalandi er ekki til asi. Eftir vinnu standa menn á jólamörkuðum, fá sér glögg, tala saman, hlægja, hitti vini, kunningja, vinnufélaga og dreifa þessu á nokkur kvöld. Á þessum mörkuðum má kaupa handgerðar jólagjafir, leikföng, glerlistaverk, fatnað o.s.fr. Inn á milli eru svo gamlir menn sem grilla maroni, hnetur sem springa við steikingu og bragðast eins og sætar kartöflur. Markaðirnir loka kl. 22.00 og þá fara allir heim með fjölskyldunni að sofa.

Enginn asi, ekkert stress. Hér á landi má hinsvegar ekki selja glögg á götum úti. Það má ekki drekka opinberlega lögum samkvæmt, eða selja áfengi. Samt er bærinn fullur af fólki allar helgar sem drekkur á götum úti, ælir á útihurðir, öskrar, grætur, brýtur, deyr áfengisdauða, slæst.... ofurölvi. Hvern erum við að blekkja hérna? Ég hugsa um þetta því að þetta eru fyrstu jólin mín í 8 ár sem ég fer ekki til Evrópu að slaka á í jólaösinni.

Við erum að færast í átt til opnara samfélags á mörgum sviðum en erum ennþá hugarfarslega heft á mörgum sviðum. Það jákvæða er að við erum á fá yngra fólk á þing sem búið hefur í öðrum löndum og er víðsýnna en margir þeir sem kláruðu bara lögfræðina hér heima og hafa aldrei farið neitt.


Skata og söngur

Þá er skötutíðin hafin. Ég fór í tvær veislur í gær, söng í einni og át í hinni. Skatan er almennt orðin mildari og ég kenndi því um að sjóflutningar frá vestfjörðum eru nú aflagðir. Ælti þetta fari ekki sem ferskt hráefni að vestan en komi hingað suður sem úldmeti. Landleiðin er ekkert mikið greiðfærari en sjóleiðin.

Í skötutíð er mikið sungið. Ég læt hér fylgja með gamla mynd af mér og norskum tenórsöngvara sem var mjög vinsæll í Tromsö og Hollandi snemma á sjöunda áratugnum.

Tenor og Bassi


Morfís og framtíðin

Morfis5

Hér gefur að líta nokkra snillinga. Við vorum í ræðuliði Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1986 og verndari okkar var Hjálmar Árnason alþingismaður en þjálfarar Gunnar Eyjólfsson og Baldvin Halldórsson. Við unnum allar keppnirnar nema þá síðustu. Á myndinni eru Böðvar Jónsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Bjarni Thor Kristinsson alþjóðlegur bassasöngvari, Davíð Ólafsson Wunderbass innlendur bassasöngvari og svo Jóhann Björnsson tilvonandi alþingismaður fyrir Vinstri græna.


Sálumessur, vondur söngur og líkbrennslur

Fékk mér súpu á Sægreifanum í hádeginu. Þarna er að myndast kjarni lítilla veitingastaða niður við höfnina. Túristar elska þetta og ég sé að þessir braggar gætu orðið líflegsti smábúðakjarni Reykjavíkur. Ekki rífa þetta!

Var að hlusta á sálumessu í dag. Þá rifjaðist upp fyrir mér tónheyrnartími í Vínarborg. Kennarinn bað okkur um að hlusta á eina sálumessu og skrifa ritgerð um hana. Ég rétti upp hönd og bað um undanþágu, sagðist vera mótmælandi. Þá leit hann á mig hvasst og hrópaði "Aber die Protistanten muessen auch sterben hr Olafsson". Þetta útleggst sem "en mótmælendur deyja líka herra Ólafsson".

Sami kennari sagði okkur að gott væri að vingast vel við verstu söngnemana, þeir yrðu annaðhvort krítíkerar og óperustjórar.

Ég syng mikið við útfarir og hef því furðað mig mikið á þessum mótmælum gegn líkbrennslu í Grafarvoginum. Dauðinn er orðinn svo furðulegt tabú í nútímanum, en samt eru allir með grill á svölunum hjá sér. Bara smá pæling!


Þjófar, krakk og Hemmi Gunn

Aja, smá hlé á skrifum enda allt vitlaust að gera. Byrjaður að grafa grunn í Reykjanesbæ og búinn að redda vinnuskúr. Í vor verður öllum boðið í innflutningspartí og í sumar grillpartí. Svo er búið að vera vitlaust að gera í söngnum. Skemmtilegt var að syngja í afmæli Hemma Gunn á Brodway. Það var góðmennt og þeir sem töluðu og sungu höfðu allir persónuleg kynni af Hemma. Ekkert fegrað, enginn fagurgali, bara talað frá hjartanu og hreint út. Við Stebbi sungum Blue Christmas og færðum dauðan Elvis að sjálfsögðu upp á Hemma. Gekk mjög vel.

Í fyrradag söng ég með Ester systur á Heilsuhælinu í Hveragerði. Sem aukalag ákvað ég að taka Agnus Dei. Í miðju lagi áttaði ég mig á því að þetta var heiltóni of hátt, en sú útgáfa sem ég syng vanalega fer þó á mín efstu mörk. Það stóð líka heima, á efstu nótunni lokaði ég öðru auganu, studdi með hnjánum og lifrinni og allt kom fyrir ekki. Það  sem kom var eins og skelfingarbaul úr kálfi sem Guttormur í Húsdýragarðinum var að misnota um leið og hann steig á norskan skógarkött. Það kom samt eitt bravo frá gamalli konu.

Góð er sagan líka af Anton Steingruber söngkennara. Anton þessi er eins og austurrískur pylsugerðarmaður, þybbinn, brosmildur, talar hátt og öskrar í farsíma eins og í gamla loftskeytastöð. Hann hefur alltaf búið hjá vinafólki hér í Reykjavík og þetta ágæta fólk er búið að láta hann hafa lykil. Um daginn kom hann til Íslands og húsráðendur voru ekki heima. Anton Steingruber ruddist inn eins og honum einum er lagið og setti þjófavarnarkerfið af stað. Um leið hringdi síminn og hann vissi að þetta væri öryggisþjónustan svo hann svaraði og öskraði í símann í gegnum hávaðann af kerfinu: "Ich bin Anton Steingruber und darf hier sein. ANTON STEINGRUBER, tut mir leid." Svo lagði hann á. Þessi svör dugðu öryggisþjónustunni lítið svo þeir hringdu í gsm númer húsráðenda. Þar var svarað og öryggisvörðurinn greindi skelkaður frá aðstæðum og sagði: Kerfið hjá ykkur fór í gang og við hringdum eins og lög gera ráð fyrir. Franklín Steiner svaraði og bullaði bara. Á hann nokkuð að vera þarna?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband