Enn í Vilnius - Lækjartorg drepið

Við Fóstbræður áttum fanta góðan konsert í dag. Við gengum frá hótelinu að konsertsalnum í kjólfötum. Þetta var eins og karnival, fólk hló og tók myndir. Það vissi enginn að þarna væri háalvarlegur kór á ferð. Tónleikarnir gengu ljómandi og voru öllum til sóma.

Ég sá á netinu að löggan var að skamma eiganda Segafredo á Lækjartorgi fyrir að hafa of mörg borð á torginu. Er ekki í lagi með þetta lið. Lækjartorg er eitt ógeðslegasta miðbæjartorg Evrópu og Segafredo kaffihúsið er það eina sem hefur glætt þetta útælda rónatorg lífi. Þetta er með ólíkindum og vonandi sér borgin sóma sinn í því að verðlauna eigendur Segafredo fyrir viðleitni sína að gæða borgina lífi. Kaffihúsið á ekki torgið, gott og vel. En hvað á þessu torgi er til sóma??? Ekkert, nákvæmlega ekkert. Nema þetta kaffihús.

 


Með Fóstbrærðum á slóðum Heklu

Núna er ég staddur í Vilnius í Litháen  ásamt mínum áskæru Fóstbræðrum. Þessi borg er falin perla hér í austrinu. Fyrir tveimur árum var ég hér við ströndina og það jafnast fyllilega á við allt það besta í dýrari löndum hér sunnan við okkur.

Aðal tónleikarnir verða á morgun og ég er enn að keppast við að ná sólarhringnum réttum. Allir makalausir voru sendir hingað með næturflugi og mættu eins og áströlsk náttdýr um hádegi í gær eftir 9 tíma ferð.

Hér mun karlakórinn Hekla hafa tekið upp nokkur af sínum bestu atriðum og er það von að fóstbræðrum verði smalað í myndatöku fyrir framan tónleikasalinn þar sem Heklukórinn var tekinn upp.

Annars er það af Litháen að segja að hér sést ekki feitt fólk, ekki heldur tyggjóklessur á götum eða sjoppur. McDonalds er víst að fara á hausinn. Allir eru mjóir nema ég og tenórarnir í kórnum.


Gullfalsarar og bankar

Ég hló mikið þegar ég heyrði fréttirnar í kvöld. Þetta hefur ekkert með fordóma að gera, en Ísland er líklegast eina landið á þessari jörðu sem hefur aðalfrétt sjónvarpsins um sígauna sem selja "falsað gull". Ég hef ekki hlegið svona mikið að fréttunum í langan tíma. Næsta frétt var ekki síður sniðug: "bankarnir eru ekki að fella gengið".

Og hverjir skildu nú græða meira á starfsemi sinni?


Boltinn, kórferðir og þjálfarar.

Fór með frúnni í kórferðalag til Austurríkis í byrjun mánaðarins. Hún stjórnar Breiðfirðingakórnum og ég fékk að fljóta með í ferðina út á nokkur einsöngslög. Austurríki breytist hægt ef nokkuð. En það var frábært að fá að vera bara túristi í landi sem maður hefur heima í í mörg ár. Við keyrðum bara um sveitavegi og það var áberandi að ekki var ryðgaður traktor eða Landrover fyrir utan eitt einasta bóndabýli. Ekki ryðgað dekk eða nokkur hlutur. Annað sér maður hér um sveitir.

Þegar ég var að læra í Vínarborg töpuðu þjóðverjar einhverjum mikilvægum leik í fótbolta. Þýsku samstúdentar mínir voru að ræða þetta í kaffiteríunni og vildu reka þjálfarann. Ég sagði að það væri góð hugmynd, og að lausnin yrði að fá austurrískan þjálfara...... ! Úffff, þeir hlógu ekki.

Viku seinna spiluðu þjóðverjar við bandaríkjamenn. Vinur okkar með millinafnið VON sagði að kaninn hefði aldrei unnið Þýskalandi. Jú, sagði vinur minn frá Króatíu, 1945!!! Ég hef aldrei séð feitan tenor hlaupa eins hratt á ævinni.

 Við komum við í klaustrinu Melk í Niederösterreich. Þar var myndin Nafn Rósarinnar tekin upp. Magnað að skoða bókasafnið þar. Ef íslensku handritin hefðu haft slíkt heimili væri nú eitthvað meira varðveitt að þeim leðurskruddunum. Þetta bókasafn er notað af nemendum kaustur-menntaskólans sem eru strákar og stelpur úr héraðinu. Þetta er safn í fullri notkun.

Melk-Library%20Small

 Ef þið viljið sjá fleiri mögnuð bókasöfn í sama flokki kíkið á:

http://curiousexpeditions.org/?p=78

 


Hamborgara í gæsluhliðið takk!

Fór heim til Keflavíkur í gær. Það er sama hversu langt maður flytur í burtu, ég held alltaf tryggð við grunnþjónustuna þarna fyrir sunnan. Ég gerði mér líka ferð upp á flugvöll og heimsótti minn gamla rektor Hjálmar Árnason hjá Keili.

Það eru ósjálfráðir reflexar að hægja á sér við gamla eftirlitshliðið á vellinum. Ég hægði á mér og nánast stoppaði til að vera viss um að enginn væri á vakt. Þarna vil ég sjá Hamborgarabúllu Tómasar opna sjoppu með minjagripasölu þar sem starfsfólkið verður klætt í amerískan hergalla hægra megin, og gamlan íslenskan löggubúning vinstra megin. Svo geta þeir veifað bílunum í gegn með steikarspaðanum. Þar á líka selja vinsælasta smyglvarninginn; Montain Dew í dós og Hersey bar með hrísi. Fyrir þá allra hörðustu má selja Rootbeer undir borðið. Sem eftirrétt verður auðvitað að bjóða upp á grillaða sykurpúða. Úff ég gæti haldið lengi áfram........ ástandsbarnið.

Það eru ótrúlegur uppgangur á gamla varnarsvæðinu. Þarna munu skólarnir þjóna sínu nánasta umhverfi og sinna væntanlegri eftirspurn á vinnuafli. Þetta gerir skólinn í samstarfi við þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að hefja starfsemi á svæðinu. Þetta hafa skólarnir talað um í 30 ár en núna fáum við loksins að sjá þetta verða að veruleika með skipulögðum hætti. Þetta mun styrkja byggðina þarna og atvinnulífið allt.

 


Springtime for Hitler

Gleðilegt sumar........ það kemur alveg örugglega í ár. Við Stefán sungum inn sumarið fyrir Fjölmennt í gærkveldi á Nordica. Það var einlæg gleði sem skein úr hverju hjarta. Við vorum klappaðir upp en í aukalaginu var eftirrétturinn borinn fram og þá minnkaði heldur áhuginn á okkur. Þetta var svo frábært og einlægt.

Stefán var að versla í Nóatúni í gær þegar stór Econloline brunaði upp að búðinni og út stormuðu nokkrir uppábúnir og fullir Hitlerar. Þeir stormuðu um búðina og einn þeirra gekk að afgreiðslukonunni og öskraði: ef þú værir ekki ljóshærð þá straffi saktan fjört í schnitzel und sauerkraut! Við þessi öskur komu tveir hlaupandi og smelltu hælum fyrir aftan foringjann og öskruðu Heil Hitler. Seinna um daginn sáust þessir náungar marsera um átakasvæðið við Rauðavatn, þeir voru víst að dimmitera blessaðir.

Ég mæli með myndinni The Producer, bæði söngleiknum og leiknu myndinni. Í uppsetningu á söngleiknum Springtime for Hitler fer allt úrskeiðis og að lokum er það samkynhneigður dansari sem tekur að sér hlutverk foringjans. Geggjað!


Hamingjan sanna!

Skrapp til Þýskalands í síðustu viku að syngja yfir hákarli og sviðakjömmum. Notaði tækifærið og heimsótti Luebeck minn gamla heimabæ. Ég heimsótti óperuna þar sem ég söng um árið. Og núna, átta árum seinna sitja þarna sömu söngvararnir, á sömu launum, jafn óhamingjusamir og áður og gera ekkert í málinu. Þeir sem voru farnir eru flestir hættir að syngja og farnir að sópa göturnar. Þetta var furðuleg tilfinning og ég var feginn að hafa komið mér í burtu. Fékk mér kebab með karrísósu og brunaði burt.

Annars er Luebeck með eitt flottasta bakarí í Evrópu. Gamli marsípankóngurinn Niederegger stendur alltaf fyrir sínu. Ég fæ mér alltaf eina sneið í gamla bakaríinu ásamt kaffi með smá möndlukeim. Allt stúelseð upp á gamla mátann. Þar rétt hjá bjó Tómas Mann og gengt húsinu hans er St.Marin þar sem Bruekner er grafinn, gamli orgelkennari Bach, þar sem kirkjuklukkan liggur á gólfinu eftir að bretar hefndu sprenginganna í Coventry.

 


La Trallalavíata

Fór á frumsýningu óperunnar í gær á La Traviata. Frábær sýning og geggjað að heyra í Sigrúnu Pálma og Tómasi Tómassyni, öllum öðrum ólöstuðum. Tómas lagði undir sig sviðið með mögnuðum söng og sannfærandi leik. Hann var eins og "strætó þversum á breiðgötu" eins og Guðmundur Jónsson lýsti einhverjum stórsöngvara hér í denn.

Ég er að læra íslensku og eftirlaunaþegar

Ég fór á bensínstöð um daginn. Þar var ung stúlka að afgreiða sem er ekki í frásögu færandi nema að hún var með barmmerki sem á stóð "ég er að læra íslensku". Þetta fannst mér magnað og viðmót allra í búðinni var annað. Allir brostu og lögðu sig fram, töluðu hægt og notuðu ensku þegar ekki annað dugði. Þetta er eitt það flottasta sem ég hef lengi séð.

Annar plús. Fór í Húsasmiðjuna í dag. Ég var að leita að skrúfum fyrir útdauðar rafmagnsdósir ásamt fylgihlutum. Í fyrsta skiptið fékk ég 100% þjónustu. Gamall maður afgreiddi mig og vissi nákvæmlega hvað ég var að tala um, þekkti skrúfustærðina, tappana og vissi í hvaða rekka steinborinn var sem passaði við. Hann var kurteis, vissi hvað hann var að segja, lagði sig fram og reyndi ekki að fela sig þegar næsti kúnni nálgaðist.

Pabbi minn er kominn á eftirlaun. Eins og ég hef fyrr sagt fór hann á námskeið hjá tryggingasérfræðingi. Hann hafði ekki margt að segja en sagði þó "vinnið eins mikið svart og þið getið". Sem betur fer eru að verða breytingar á. Eftirlaunaþegar eru topp starfskraftar.

 


Gleðilegt ár, Rússar og óperur

Gleðilegt ár alle sammen. Ég byrjaði að blogga svo að ættingjar og vinir gætu fylgst með húsbyggingu hjá mér heima í Reykjanesbæ. Það þarf ekki að orðlengja þetta frekar, húsið er selt og ég búinn að kaupa í Mosfellsbæ þar sem ég mun setjast að ásamt sposu minni og familí. Þetta verður vonandi síðasta húsið sem ég tek í gegn í bili...... í bili!

Ég er mikill áhugamaður um alla fjölmenningu og gömlu góðu Evrópu. Um áramótin sungum við Stefán fyrir hóp af Rússum á Kaffi Reykjavík. Við náðum upp fínni stemningu og sungum Elvis og Abba við góðar undirtektir. Ég var samt ekki alveg grunlaus og spurði fararstjórann hvort Rússar þekktu Abba almennt. Hann horfði á mig og svaraði "Njét, ekki baun". Rússar hafa bara gaman að góðum söng, sama hvað sungi er.

Þetta er ekki ólíkt íslenskum óperugestum. Þeir þekkja ekki óperur en hafa gaman að góðum söng. Í Austurríki hafa menn hinsvegar gaman að góðri túlkun karaktera og sannfærandi leikstjórn. Það er eitthvað í það hjá okkur.

 Ég fetti hér fingur út í Siðmennt og hugmyndir þeirra um presta í skólum. Þeir gerðu mjög afdrifarík mistök í þessari baráttu sinni. Hefðu þeir sagt "við mótmælum kristniboði í skólum" hefði ekkert gerst. Ein þeir mótmæltu heimsókn presta í skóla og að þeir væru með trúboð. Málið er að prestar gegna svo mörgum störfum sem tengjast ekkert trú eða trúboði. Fólk sem skilur fer ekki til prests til að fá afstöðu kirkjunnar og Jesú til skilnaðar, eða sjúkrahúsprestar sem mæta og spjalla við sjúklinga, eða prestar sem veita áfallahjálp. Ég held að mjög fáir líti á presta sem trúboða hreint út sagt. Þess vegna hefði Siðmennt átt að leggja meiri áherslu á að tala gegn trúboði í skólum en ekki persónugera það í prestum.

 Er annars ekki aðfangadagur í Rússlandi í dag? Gleðileg jól.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband